„Ég hef ótrúlega miklar áhyggjur af þessu suður-afríska afbrigði. Það er mjög stórt vandamál. Það er enn stærra vandamál en breska afbrigðið,“ sagði Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, í samtali við BBC Radio.
Vísindamenn segja að suður-afríska afbrigðið sé með margar stökkbreytingar sem gera því auðveldara fyrir að komast inn í frumur líkamans. Eins og með breska afbrigðið þá gerir þetta afbrigðið mun meira smitandi en önnur afbrigði. Ekki hefur enn verið sýnt fram á að fólk verði veikara af þessu afbrigði en öðrum.
Afbrigðið hefur dreift sér hratt um Suður-Afríku og sérfræðingar segja að þetta sé það afbrigði sem er algengast á mörgum svæðum. Smitum hefur fjölgað gífurlega í Suður-Afríku að undanförnu og skömmu fyrir áramót fóru staðfest smit yfir eina milljón.