Donald Trump tilkynnti rétt í þessu á samfélagsmiðlinum Twitter að hann hygðist ekki vera viðstaddur innsetningarathöfn Joe Biden þann 20. janúar næstkomandi.
To all of those who have asked, I will not be going to the Inauguration on January 20th.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 8, 2021
Fjarað hefur heldur hratt undan stuðningi við forsetann eftir óeirðirnar við þinghúsið á miðvikudaginn og ef marka má pólitískar umræður í fjölmiðlum og yfirlýsingar fjölmargra bandarískra þingmanna er Trump heppinn ef hann nær að klára þá 12 dagana sem hann á eftir í embætti. Fjölmiðlar og þingmenn kenna Trump um óeirðirnar.
Nancy Pelosi, Chuck Schumer og fleiri hátt settir demókratar í báðum deildum þingsins hafa eftir óeirðirnar verið harðorð í garð forsetans og sagt brotthvarf hans þola enga bið. Sögusagnir hafa síðan verið á sveimi um að málaferli gegn Trump séu nú undirbúin. Pelosi hefur sjálf ekki staðfest þær sögusagnir, en sagði þó að kæmi til málaferla gegn forsetanum væri vel hægt að afgreiða þau fljótt.
Fái Trump að klára sína daga í embætti er þó ljóst að hann verður fjarri góðu gamni þann 20. janúar þegar Biden sver embættiseið. Innsetningarathöfnin fer venju samkvæmt fram á tröppum þinghússins. Trump verður sjötti forsetinn sem ekki er viðstaddur innsetningarathöfn arftaka síns í embætti, að þeim sem létust í embætti frátöldum, að sjálfsögðu.
Af þeim fimm sem hafa ekki mætt á innsetningarathafnir arftaka sinna voru tveir sem má segja hafi verið „löglega afsakaðir.“ Hinir þrír mættu ekki sökum persónulegrar styggðar.
Árið 1800 neitaði John Adams, annar forseti Bandaríkjanna, að mæta á innsetningarathöfn Thomas Jeffersons. Sonur John Adams, John Quincy Adams, lék svo leik föður síns eftir árið 1829, þegar hann neitaði að vera viðstaddur innsetningarathöfn Andrew Jacksons.
Fjörutíu árum síðar, árið 1869, tafðist Andrew Johnson á ríkisstjórnarfundi á meðan arftaki hans, Ulysses S. Grant, sór embættiseið sinn. Varð Johnson þar með eini forsetinn til þess að ganga inn á ríkisstjórnarfund sem forseti en koma út af honum valdalaus.
Donald Trump bætist því senn í hóp annáluðu fýlupúkafeðganna John og John Quincy Adams, og Andrew Johnsons, sem fjórði fýlupúki í sögu innsetningarathafna.
Hinir „löglega afsökuðu“ voru Woodrow Wilson og Richard M. Nixon.
Wilson mætti ekki á innsetningarathöfn Warren G. Hardings árið 1921 sökum veikinda og Nixon mætti ekki þegar Gerald R. Ford var settur í embætti, enda hafði Nixon þá þegar flogið frá Washingtonborg með Air Force One, forsetaflugvél Bandaríkjanna, líkt og frægt er.
Ivanka Trump, dóttir Donalds Trumps, og eiginmaður hennar, Jared Kushner, hafa bæði gegnt störfum í Hvíta húsinu í valdatíð Donalds Trumps, en nýverið sáust flutningabílar frá flutningafyrirtækinu College Hunks utan við hús þeirra við Kalorama Road í Washington. Þess má geta að við Kalorama Road stendur einnig sendiherrabústaður Íslands sem og heimili Obama fjölskyldunnar.
Því má gera ráð fyrir að öll Trump fjölskyldan verði farin frá Washingtonborg þegar Joe Biden verður settur inn sem forseti.
Someone just sent me this photo of moving trucks at Jared and Ivanka’s house. pic.twitter.com/fll6OiiBHX
— Hunter Walker (@hunterw) January 7, 2021