NPR skýrir frá þessu og hefur eftir Gabriel de Erausquin, hjá Glenn Biggs Institute for Alzheimers við Texasháskóla, að óttast hafi verið að COVID-19 valdi heilaskemmdum. Biggs er einn af höfundum nýrrar rannsóknar, sem var birt á þriðjudaginn í vísindaritinu Alzheimers & Dementia, um áhrif COVID-19 á heilann.
Þessi ótti vísindamannanna reyndist á rökum reistur miðað við niðurstöður rannsóknarinnar. Fram kemur að það sé líklega ekki sjálfur sjúkdómurinn sem veldur heilaskaða heldur varnarviðbrögð líkamans og heilans.
Margir sjúklingar hafa upplifað einkenni sem minna á heilaskaða. Þeir glíma við svo mikið minnistap að það gerir þeim erfitt fyrir í daglegu lífi. „Þeir kvarta undan vandamálum við að skipuleggja hluti, þar á meðal hluti eins og að elda mat,“ er haft eftir Erausquin.
Hann og samstarfsfólk hans segja að fleiri eftirköst megi tengja við heilaskaða COVID-19-sjúklinga, þar á meðal krampa og veikindi á geði. Þeir óttast að alvarleg veikindi af völdum COVID-19 geti aukið líkurnar á að fólk þrói með sér Alzheimerssjúkdóminn.
Um allan heim vinna vísindamenn hörðum höndum að rannsóknum á áhrifum COVID-19 á heilann en nú þegar er vitað að sjúkdómurinn getur valdið litlum blæðingum í heilanum. Þetta hefur NPR eftir Aviandra Nath, hjá National Institute of Neurological Disorders and Stroke. „Við uppgötvuðum að mjög litlar æðar í heilanum láku. Þetta var ekki regluleg dreifing, heldur hér og þar,“ er haft eftir henni. Niðurstöður rannsóknar hennar hafa verið birtar í vísindaritinu New England Journal of Medicine.
Þessar litlu blæðingar geta skýrt af hverju margir COVID-19-sjúklingar, sem hafa náð bata, glíma við þreytu, svima og öran hjartslátt. Þessi skaðar geta aukið líkurnar á að fólk þrói Alzheimerssjúkdóminn með sér að sögn vísindamanna.