Business Insider og The New York Times hafa þetta eftir ráðgjafa Pence. The New York Times segir að þessi afstaða Pence njóti stuðnings margra í ríkisstjórn Trump. Pence hefur enn ekki tjáð sig opinberlega um málið.
Valdamestu Demókratarnir í Washington D.C. og margir Repúblikanar hafa hvatt Pence til að virkja ákvæðið til að hægt sé að losna strax við Trump úr embætti. Meðal þeirra er Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeildinni. Hún sagði í gær að hún vænti skjótra viðbragða frá Pence. Hún sagði jafnframt að ekki sé útilokað að fulltrúadeildin höfði aftur mál á hendur Trump til embættismissis.
Adam Kinzinger, þingmaður Repúblikana, og Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, hafa hvatt Pence til að virkja viðaukann til að koma Trump úr embætti strax.
Pelosi og Schumer sendu frá sér sameiginlega tilkynningu í gærkvöldi þar sem þau sögðust hafa reynt að ná sambandi við Pence til að fá hann til að virkja ákvæðið en ekki hafi tekist að ná sambandi við hann. „Hættulegar uppreisnaraðgerðir forsetans gera að verkum að nauðsynlegt er að víkja honum strax úr embætti,“ segir í tilkynningu þeirra.