Fyrir liggur að fjórir létust í mótmælunum á miðvikudaginn og margir slösuðust. Lögreglumaður lést í gær á sjúkrahúsi af völdum áverka sem hann hlaut í árás múgsins á þinghúsið. Tugir voru handteknir. Margir hafa spurt sig hvernig það gat gerst að múgurinn hafi komist svona auðveldlega í gegnum lokanir lögreglunnar og öryggisvarða. Myndir og upptökur frá Capitol Hill sýna að viðbúnaður lögreglunnar og öryggisvarða var lítill og því auðvelt verk fyrir mótmælendur að komast leiðar sinnar.
En það þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en til byrjun júní á síðasta ári til að sjá allt aðra mynd. Þá stóðu vígbúnir þjóðvarðliðar við Lincoln Memorial reiðubúnir til að verja það en þá fóru fram stór mótmæli á vegum Black Lives Matter í kjölfar dráps lögreglunnar á George Floyd.
Joe Biden ræddi þetta í ræðu sem hann flutti í gær og skóf ekki utan af hlutunum: „Það þarf enginn að segja mér að ef þetta hefði verið hópur Black Lives Matter mótmælenda í gær hefði hann fengið svipaða meðferð og þessar bullur. Þetta var algjörlega óásættanlegt,“ sagði Biden og sló í púltið en hann var greinilega í uppnámi.