Nú þegar hefur töluverð gagnrýni komið fram um myndina og þykir gagnrýnendum of mikil áhersla lögð á þennan erfiða tíma lífs hans. Svo eru auðvitað þeir sem bíða spenntir eftir að sjá myndina.
Eftir því sem fram kemur í myndinni þá fór að síga á ógæfuhliðina hjá Tiger 2006 þegar faðir hans, Earl Woods, lést en hann var helsta fyrirmynd Tiger. Hann er sagður hafa leitað huggunar í partýborginni Las Vegas eftir andlátið þar sem áfengis var neytt í miklum mæli og mörg hundruð þúsund dollarar fuku hvað eftir annað þegar hann skemmti sér með vændiskonum. Að sögn þá koma margar af þessum konum fram í myndinni og segja frá hvað gerðist.
„Annan hvern mánuð bað hann um fleiri stelpur. Það gátu verið allt að tíu í einu. Honum líkaði vel við ungar „háskólatýpur“. Gjarnan ljóshærðar,“ segir Michelle Braun í myndinni en hún kynntist Tiger í Las Vegas.
Joe Grohman, fyrrum fjölskylduvinur Woodsfjölskyldunnar, segist skilja vel að hlutirnir hafi farið svona því hann og Earl Woods hafi ekki verið bestu fyrirmyndirnar þegar kom að því að halda sig innan ramma hjónabandsins. „Earl átti lítinn tjaldvagn og við leyfðum honum að kenna á golfvellinum. Þar kenndi hann mjög aðlaðandi ljóshærðum konum. Ég komst aldrei að hvernig hann komst í samband við þessar konur. Eftir kennslustundirnar var þeim oft boðið inn í tjaldvagninn í „kokteil“, segir hann að sögn news.com.au.
Þetta telur Grohman að hafi haft mikil áhrif á Tiger. „Tiger var á vellinum og ég var næstum því jafn slæmur. Lengi vel voru Earl og ég stærstu fyrirmyndir hans í lífinu og svo var ég að eltast við konur og það sá hann. Ég var kvæntur. Að hafa þessi áhrif á barn á þroskaskeiði þess. Fyrirgefðu vinur,“ sagði Grohman.