„Trump og ég höfum átt samleið. Mér finnst leitt að þetta skuli enda svona. En eftir daginn í dag er það eina sem ég get sagt að ég er hættur. Nú er nóg komið,“ hefur NBC News eftir honum. Hann sagðist einnig styðja úrslit forsetakosninganna í nóvember að fullu. „Joe Biden og Kamala Harris eru löglega kjörin,“ sagði hann.
Graham er ekki eini Repúblikaninn sem styður Trump ekki lengur. Phil Scott, ríkisstjóri í Vermont, sagði í gær að víkja eigi Trump úr embætti vegna þáttar hans í óeirðunum. „Hornsteinninn í lýðræðinu okkar og grundvallaratriði lýðveldisins okkar eru í hættu vegna forsetans. Nú er nóg komið. Trump verður að draga sig í hlé eða verða vikið úr embætti af eigin ríkisstjórn eða þinginu,“ skrifaði hann á Twitter.
Margir Demókratar krefjast þess einnig að Trump hverfi úr embætti. Meðal þeirra er Ilhan Omar, þingkona í fulltrúadeildinni, sem er byrjuð að undirbúa nýja málshöfðun á hendur Trump til embættismissis. „Fulltrúadeildin á að draga Donald J. Trump fyrir ríkisrétt og öldungadeildin á að svipta hann embætti. Við getum ekki leyft honum að sitja áfram. Þetta er spurning um að vernda lýðveldið okkar,“ skrifaði Omar í gærkvöldi. Tæpt ár er síðan meirihluti Repúblikana í öldungadeildinni sýknaði Trump af ákæru fulltrúadeildarinnar til embættismissis.