fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Pressan

Dökkur floti Norður-Kóreu er nær horfinn

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 30. janúar 2021 11:00

Einn umræddra draugabáta.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur ekki farið vel með Norður-Kóreu frekar en önnur lönd. Þar hefur heimsfaraldurinn bæst ofan á aðrar þjáningar og hörmungar þessarar kúguðu þjóðar sem býr við algjöra einræðisstjórn og er nánast algjörlega sambandslaus við umheiminn. Eitt af því sem hefur breyst eftir að heimsfaraldurinn braust út er að landamærum landsins var lokað enn frekar og voru þau nú ekki mjög auðveld yfirferðar áður. Þannig hefur dregið mjög úr samskiptum og viðskiptum landsins við umheiminn og þá sérstaklega sitt helsta viðskiptaland, Kína.

Samkvæmt frétt CNN þá hefur heimsfaraldurinn einnig valdið því að dökkur floti landsins hefur sáralítið stundað ólöglegar veiðar á kolkröbbum í rússneskri landhelgi.

Samkvæmt samantekt Global Fishing Watch þá fækkaði norður-kóreskum skipum og bátum, sem voru í rússneskri landhelgi, um 95% á síðasta ári miðað við 2019. Tölurnar eru unnar út frá gervihnattarmyndum. Á síðasta ári fóru norður-kóreskir bátar í 6.600 veiðiferðir í rússneska landhelgi en þær voru 146.800 árið áður. Einnig drógust kolkrabbaveiðar norður-kóreskra báta í eigin landhelgi mikið saman.

Ástæðan fyrir að flotinn er kallaður „dökki flotinn“ er að áhafnirnar gefa ekki upp staðsetningu þeirra eins og gefur að skilja þegar þeir stunda ólöglegar veiðar í landhelgi annarra ríkja að næturlagi og yfirleitt stunda þeir veiðar sem brjóta gegn alþjóðareglum.

Árlega gerist það að báta úr þessum flota rekur á land í Japan eftir að hafa lent í hrakningum á hafi úti  en þeir eru ekki til þess gerðir að fara langt frá landi við veiðar sínar. Margir sökkva með manni og mús en aðra rekur, yfirleitt mannlausa, á land í Japan. Þeir eru þá kallaðir draugabátar.

Global Fishing Watch telur að þessi mikli samdráttur í veiðiferðum Norður-Kóreumanna sé vegna ákvörðunar Kim Jong-un, einræðisherra, um að grípa til harðra sóttvarnaráðstafana á síðasta ári til að halda kórónuveirunni frá landinu. Þarlend yfirvöld fullyrða að ekkert smit hafi komið upp þar í landi en sérfræðingar telja það vægast sagt ólíklegt og segja að um áróður frá einræðisstjórninni sé að ræða. Þeir telja þó að tekist hafi að halda faraldrinum niðri þannig að fáir hafi í raun smitast en ef mikið væri um smit í landinu myndi veikburða heilbrigðiskerfi þess hrynja.

Í skýrslu SÞ frá því í apríl á síðasta ári kemur fram að rúmlega 10 milljónir Norður-Kóreumanna búi við óvissu hvað varðar matvælaöflun og ekki hefur dregið úr þessari óvissu eða fjöldinn minnkað eftir að heimsfaraldurinn braust út. Margir sérfræðingar segja að viðskipti landsins við Kína séu nauðsynleg til að afla nægilegs matar en talið er að þau hafi dregist saman um 80% eftir að landamærunum var lokað. Landið er því talið standa frammi fyrir versta matvælaskorti sínum síðan gríðarleg hungursneyð ríkti á tíunda áratugnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Mikil leit að manni sem myrti munk og særði þrjá presta í spænsku klaustri

Mikil leit að manni sem myrti munk og særði þrjá presta í spænsku klaustri
Pressan
Fyrir 3 dögum

Morgan var rænt 6 ára – Fjölskyldan beið 30 ár eftir svörum en enginn verður ákærður

Morgan var rænt 6 ára – Fjölskyldan beið 30 ár eftir svörum en enginn verður ákærður