Hvað varðar 10 af þessum sjúkdómum eru engin verkefni í gangi varðandi þróun lyfja eða bóluefna. Nú er unnið að þróun 60 bóluefna gegn kórónuveirunni, sem veldur yfirstandandi heimsfaraldri, en á sama tíma er aðeins unnið að þróun sex bóluefna gegn ebólu og fjögurra gegn zika-veirunni. Í skýrslunni kemur fram að lyfjaiðnaðurinn og alþjóðasamfélagið hafi verið illa í stakk búið til að takast á við yfirstandandi heimsfaraldur þrátt fyrir að varað hafi verið við heimsfaraldri árum saman. Eftir að skýrslan var birt kom þó fram að Moderna er byrjað að þróa bóluefni gegn Nipah-veirunni.
Jayasree K Iyer, forstjóri AMF, óttast sérstaklega að faraldur Nipah-veiru brjótist út í Asíu. Dánartíðnin af völdum veirunnar er allt að 75%. Í samtali við The Guardian sagði hún að Nipah-veiran væri mjög smitandi og veki miklar áhyggjur. „Þetta getur sprungið hvenær sem er,“ sagði hún.
Nipah-veiran getur valdið alvarlegum öndunarfærasjúkdómum og heilahimnubólgu. The Guardian segir að dánartíðnin af völdum hennar sé á milli 40 og 75%, allt eftir því hvar faraldurinn brýst út. Veiran berst frá ávaxtaleðurblökum. Litlir faraldrar í Bangladess og á Indlandi eru taldir hafa átt upptök sín í vökva úr döðlupálmum.
BBC segir að meðgöngutími smits geti verið allt að 45 dagar en það eykur líkurnar á að smit breiðist mikið út. Veiran getur einnig borist með dýrum, mat og beinum samskiptum. 11 faraldrar voru skráðir í Bangladess frá 2001 til 2011. 196 greindust með veiruna, af þeim létust 150.
Meirihluti þeirrar vinnu sem er í gangi við þróun nýrra lyfja og bóluefna snýr að HIV og AIDS, berklum, malaríu og krabbameini. Unnið er að þróun fjögurra bóluefna gegn chikungunya-veirunni sem hefur sótt í sig veðrið í nokkrum heimsálfum á síðustu árum. Lyfjafyrirtækið Bayer vinnur að þróun bóluefnis, lyfja og skordýraúða gegn zika-veirunni og beinbrunasótt.
AMF vendir á að næsti heimsfaraldur geti orðið af völdum veiru sem lyf virka ekki gegn. Það þurfi því að hraða vinnu við að finna eitthvað sem kemur í stað sýklalyfja.