Lögreglan hefur ekki skýrt frá nafni konunnar en hefur birt mynd af steypustykkinu, húðflúri á konunni og lýst eftir vitnum. Bild og Blick eru meðal þeirra fjölmiðla sem hafa skýrt frá þessu.
Í upphafi var ekki vitað hver konan var en á bak hennar var húðflúrað nafn á þekktum plötusnúði, Gayle San sem var þekkt í Lundúnum á tíunda áratugnum. Einnig var húðflúr af uglu á baki hennar.
Sagan breiddist hratt út á samfélagsmiðlum og náði til Gayle San sem skrifaði um málið á Facebook vegna tengingar þess við nafn hennar. Hún vissi hins vegar ekkert um húðflúrið eða hver bar það á bakinu. Færsla hennar vakti mikla athygli og í kjölfarið bárust lögreglunni margar ábendingar og að lokum var hægt að bera kennsl á líkið. Það er af 31 árs plötusnúði sem dáðist mjög að Gayle San og taldi hana fyrirmynd sína.