Morðtíðnin á Jamaíka er ein sú hæsta í heimi en morðin um helgina skilja sig úr fjöldanum vegna þess hversu hrottaleg þau voru. Öll fórnarlömbin voru með djúp sár á höfði.
Lögreglan óttast að raðmorðingi leiki jafnvel lausum hala en fyrir nokkrum árum voru svipuð morð framin á heimilislausu fólki. Þá var fólkið myrt að næturlagi, þegar það svaf. Lögreglan telur að það hafi einnig verið gert núna um helgina.
Andrew Holness, forsætisráðherra, sagði að sögn The Gleaner að hinum handtekna hafi verið vísað úr öðru landi til Jamaíka. Hann sagði jafnframt að lögreglan hefði sterk sönnunargögn en fór ekki nánar út í það.
The Gleaner segir að lögregluna skorti enn sönnunargögn í einu af málunum fjórum frá því um helgina. Blaðið segir að yfirvöld ætli að fjölga rýmum í gistiaðstöðu fyrir heimilislausa vegna atburðanna og einnig verður eftirlit lögreglunnar aukið.
Rúmlega 1.300 manns voru myrtir á Jamaíka á síðasta ári. Talið er að glæpagengi hafi staðið á bak við stóran hluta morðanna.