Sky News segir að snjóað hafi í bænum Aïn Séfra sem er um 1.000 metra yfir sjávarmáli. Snjókoman byrjaði eftir að frostið í bænum fór niður í 3 gráður. Íbúarnir tóku snjókomunni fagnandi og glöddust mjög enda ákaflega sjaldgæft að þeir upplifi snjókomu.
Saharaeyðimörkin nær yfir mestan hluta Norður-Afríku. Þar hefur hitastigið sveiflast mikið síðustu mörg hundruð þúsund ár en nú um stundir er ákaflega sjaldgæft að þar snjói.
Aïn Séfra er í Naama-héraðinu en þar hefur aðeins snjóað fjórum sinnum á 42 árum. Það var 1979, 2017, 2018 og 2021.
Hressilegasta snjókoman var 1979 en þá skall bylur á og stöðvaði alla umferð. 2017 dró í allt að eins metra háa skafla og 2018 var snjódýptin um 40 sm þar sem mest var. Núna var magnið þó ekki mikið.
Janúar er kaldasti mánuður ársins á þessu svæði en þá er meðalhitinn um 14 gráður. Á sumrin er hann um 38 gráður.