Síðasta málið kom upp í kirkjugarðinum við Bregninge Kirke í Tåsinge og er sóknarprestinum, Per Aas Christiansen, mjög brugðið vegna málsins. „Manni bregður mjög og við skiljum ekki hver tilgangurinn er. En vonandi verður hægt að finna út úr því,“ hefur Ekstra Bladet eftir honum.
Hann var ekki í neinum vafa um að eitthvað ólöglegt hefði átt sér stað þegar hann sá holuna en hún var um tveir metrar í ummáli og um einn metri á dýpt. Hún uppgötvaðist á laugardaginn. Hún hafði verið grafin í grafstæði þar sem eldri maður var jarðsettur 2017.
TV2 Fyn hefur eftir talsmanni lögreglunnar á Fjóni að hún sé sannfærð um að tilviljun hafi ráðið því að holan var grafin í þessu grafstæði og að engin verðmæti sé að finna í gröfinni. Hann sagði að ekki væri um það að ræða að jarðvegur hefði hrunið saman því jarðvegurinn í grafstæðinu hafi þegar verið fallinn saman. „Stóra spurningin er hvað liggur að baki því að grafa niður að kistunni. Við erum sannfærð um að það tengist manninum, sem liggur í gröfinni, ekki neitt,“ sagði talsmaðurinn. Hann skýrði jafnframt frá því að lögreglan væri að rannsaka þrjú svipuð mál úr öðrum kirkjugörðum á Fjóni. Öll hafa þau komið upp nú í janúar.