CNN skýrir frá þessu. Lögreglan fékk tilkynningu skömmu fyrir klukkan 4 að morgni um að manneskja hefði verið skotin. Þegar lögreglumenn komu á vettvang fundu þeir unglingspilt sem var með greinileg skotsár. Lögreglumenn fengu síðan upplýsingar sem leiddu þá í annað íbúðarhúsnæði skammt frá. Þar fundu þeir fimm manns, þar á meðal barnshafandi konu, sem höfðu greinilega verið skotin. Ekki tókst að bjarga barninu eða móður þess þrátt fyrir miklar tilraunir lækna og sjúkraflutningamanna.
Reiknað er með að unglingspilturinn muni lifa af. Hin látnu voru Kezzie Childs, 42 ára, Raymond Childs, 42 ára, Elijah Childs, 18 ára, Rita Childs, 13 ára, og Kiara Hawkins, 19 ára, og ófætt barn hennar.
CNN hefur eftir talsmanni lögreglunnar að rannsókn málsins sé enn á frumstigi en talið sé að ekki hafi verið um tilviljanakennda árás að ræða. Líklegt þykir að fleiri en einn hafi verið að verki.