Þetta sýna tölur frá Johns Hopkins háskólanum frá í nótt. Þetta svarar til þess að um 1 af hverjum 13 Bandaríkjamönnum hafi greinst með veiruna. Við þennan fjölda bætist óþekktur fjöldi sem hefur smitast af veirunni án þess að vita af því.
Aðeins eru fimm dagar síðan Bandaríkin náðu öðrum skelfilegum áfanga í tengslum við heimsfaraldurinn en þá var búið að skrá rúmlega 400.000 dauðsföll af völdum veirunnar.
Biden vill láta bólusetja 100 milljónir manna á fyrstu 100 dögum sínum í embætti en rúmlega 330 milljónir búa í landinu. Hann hefur einnig hvatt landsmenn til að nota andlitsgrímur þessa 100 daga. Að auki þrýstir hann mjög á þingið að samþykkja hjálparpakka upp á 1.900 milljarða dollara. Hluta af þessu fé á að nota til að greiða fyrir enn fleiri bólusetningar á næstu mánuðum.
Eins og víða annars staðar er ákveðið kapphlaup við að bólusetja sem flesta áður en veiran stökkbreytist hugsanlega og myndar meira þol gegn bóluefnum. „Stökkbreyttu afbrigðin eru mikið áhyggjuefni,“ sagði Vivek Murthy, sem Biden hefur tilnefnt í embætti landlæknis. „Við verðum að aðlaga okkur og vera einu skrefi á undan,“ sagði hann einnig.