Tíðni endurinnlagna er 3,5 sinnum hærri hjá COVID-19-sjúklingum en öðrum sjúklingum og dánarhlutfallið sjö sinnum hærra en hjá öðrum sjúklingum á sjúkrahúsum samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.
Rannsóknin, sem hefur ekki enn verið ritrýnd, sýndi einnig fram á auknar líkur á að COVID-19-sjúklingar glímdu við vandamál í hinum ýmsum líffærum eftir útskrift af sjúkrahúsi og átti þetta við um þá sem voru yngri en 70 ára og úr minnihlutahópum. The Guardian skýrir frá þessu.
„Það er búið að tala svo mikið um allt þetta fólk sem deyr úr COVID . . . en dauðinn er ekki eina afleiðingin sem máli skiptir,“ hefur The Guardian eftir Dr Charlotte Summers, sem kennir gjörgæslufræði við háskólann í Cambridg, en hún tók ekki þátt í gerð rannsóknarinnar.
Ekki er til neitt almennt samkomulag um áhrif og umfang „langvarandi COVID“ en vísindamenn hafa sagt að þau gögn sem fyrir liggja veki miklar áhyggjur. Miðað við nýlegar tölur frá bresku hagstofunni þá er fimmti hver Englendingur, sem smitast af veirunni, enn með sjúkdómseinkenni fimm vikum eftir smit og helmingur þeirra er enn með einkenni 12 vikum síðar.