Howells telur að diskurinn hafi verið grafinn þar. Hann hefur sótt um heimild til að grafa ákveðinn hluta landfyllingarinnar upp en þar telur hann að diskurinn hafi endað. CNN skýrir frá þessu.
Bitcoin var búið til 2009 af óþekktum forritara eða hópi forritara sem kalla sig Satoshi Nakamoto. Bitcoin er rafmynt sem er geymd í „stafrænu veski“ í tölvu eigandans. Það er síðan hægt að nota myntina til að greiða fyrir eitt og annað. Verðmæti myntarinnar náði nýlega áður óþekktum hæðum en nú selst ein eining á 37.000 dollara.
Þegar Howell áttaði sig fyrst á því að hann hefði hent harða disknum var verðmæti rafmyntar hans um 9 milljónir dollara. Miðað við núverandi verð hennar telur hann að heildarverðmætið sé um 273 milljónir dollara, svo það er eftir miklu að slægjast.
Í samtali við CNN sagðist hann hafa boðið borgaryfirvöldum í Newport fjórðung upphæðarinnar, sem mætti síðan deila niður á íbúana, ef hann finnur og kemst yfir rafmyntina á nýjan leik. Um 316 þúsund manns búa í borginni. „En því miður hafa þau hafnað þessu tilboði og vilja ekki einu sinni ræða við mig um það,“ sagði hann um viðbrögð borgaryfirvalda.
Talskona borgaryfirvalda sagði CNN að nokkrum sinnum hafi verið haft samband við þau síðustu 8 árin til að kanna möguleikana á að finna harðan disk sem sé sagður innihalda mikil verðmæti. Borgaryfirvöld hafi ekki hafnað tilboðum sem sett hafa verið fram, þau hafi eingöngu bent á að uppgröftur á ruslahaugunum sé óheimill samkvæmt lögum og reglum.