CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamennirnir segi, á grunni nýrrar spár, að sífellt hraðari loftslagsbreytingar og tap á líffræðilegum fjölbreytileika ógni tilvist allra lífvera á jörðinni. Eina vonin sé að leiðtogar heimsins taki sig saman í andlitinu og grípi til aðgerða núna.
Niðurstöður vísindamannanna eru byggðar á niðurstöðum 150 rannsókna sem snúast um ýmislegt tengt yfirstandandi breytingum á loftslaginu og öðru hér á jörðinni. Niðurstaðan er að jörðin sé að breytast á „miklu alvarlegri hátt en áður hefur verið talið“ af „bæði leikmönnum og mjög sérhæfðum sérfræðingum“.
Eitt af vandamálunum er að það líður langur tími á milli þess að eyðilegging af ákveðnu tagi hafi afleiðingar fyrir samfélagið og efnahagslífið. Af þessum sökum sé erfitt að sjá stóra samhengið. „Mannkynið ber ábyrgð á að jörðin verður sífellt verr í stakk búin til að viðhalda flóknu lífi,“ segir Corey Bradshaw, prófessor og stjórnandi rannsóknarinnar, í niðurstöðu hennar.
Sérfræðingar hafa áratugum saman varað við afleiðingum ágangs okkar mannanna á auðlindir jarðarinnar og sagt að við séum nærri þeim punkti þar sem ekki verður aftur snúið. Til dæmis hafa samtökin World Wide Fund for Nature sýnt fram á að stofnstærð villtra dýra hefur að meðaltali minnkað um 68% síðust fjóra áratugi.