Anders Romarheim, sem rannsakar hryðjuverk og kennir við norska herskólann, sagði í samtali við Norska ríkisútvarpið að hann hafi áhyggjur af Harris. Til viðbótar við að hún sé svört og kona þá sé það hún sem hafi nú úrslitavaldið í öldungadeildinni og muni skera úr um niðurstöður atkvæðagreiðslna í deilumálum þar sem flokkarnir koma sér ekki saman og atkvæði falla eftir flokkslínum.
Nú hafa bæði Demókratar og Repúblikanar 50 þingmenn í öldungadeildinni og það er því atkvæði varaforsetans sem ræður úrslitum ef atkvæði falla jafnt. „Hún verður þungamiðjan í allra umdeildustu málunum og það mun valda mikilli reiði í hennar garð,“ sagði Romarheim.
Harris er fyrsta konan sem gegnir embætti varaforseta. Hún á indverska móður og svartan föður en er oftast sögð vera Bandaríkjamaður af afrískum ættum eða bara svört. Þegar hún er sjálf spurð hvernig hún skilgreini sig segir hún yfirleitt: „Bandarísk“.
Romarheim sagðist telja að Harris muni þurfa að lifa með hótunum á stigi sem ekki hefur áður sést. Hann hefur rannsakað hryðjuverk og fjölmiðla hægrimanna í Bandaríkjunum. Hann telur að bandarískir öfgahægrimenn hafi nú útnefnt Harris sem óvin sinn númer eitt.