CNN skýrir frá þessu. „Áætlun okkar er yfirgripsmikil, byggð á vísindum, ekki stjórnmálum. Hún er byggð á sannleika, ekki afneitun og hún er nákvæm,“ sagði Biden í gær þegar hann kynnti 198 blaðsíðna aðgerðaáætlun gegn heimsfaraldrinum.
Fyrsta skrefið er að bólusetja af fullum krafti en Biden hefur sett það markmið að búið verði að bólusetja 50 milljónir manna á fyrstu 100 dögum hans í embætti. Það er að þessar 50 milljónir verði búnar að fá þá tvo skammta sem þarf af þeim bóluefnum sem nú eru í boði.
Biden sagði að áætlunin hafi verið samin með aðkomu besta smitsjúdómasérfræðings landsins, Anthony Fauci, og fleiri sérfræðinga og ráðgjafa. Fauci var viðstaddur kynningu Biden á áætluninni. Biden sagði að Bandaríkjamenn muni heyra „miklu meira frá Dr. Fauci, ekki frá forsetanum, heldur frá alvöru sérfræðingum og vísindamönnum“.
Donald Trump, forveri Biden í Hvíta húsinu, lét mikið í sér heyra í tengslum við heimsfaraldurinn og talaði oft gegn því sem sérfræðingar hans sögðu. Nú verða vinnubrögðin önnur að sögn Biden. „Við munum tryggja að þeir verði lausir við pólitísk afskipti og að ákvarðanatakan verði eingöngu byggð á vísindalegum grunni og út frá heilbrigðissjónarmiðum, vísindi og heilbrigðissjónarmið og ekkert annað, ekki því hverjar pólitískar afleiðingar verða,“ sagði Biden.