Wall Street Journal skýrir frá þessu. Fram kemur að þetta vilji Trump gera til að tryggja áframhaldandi pólitísk áhrif sín eftir að hann yfirgefur Hvíta húsið í dag. Hann hefur heldur átt undir högg að sækja innan Repúblikanaflokksins síðustu daga eftir að stuðningsmenn hans réðust á þinghúsið í Washington 6. þessa mánaðar.
Trump hefur átt í deilum við suma af leiðtogum Repúblikanaflokksins að undanförnu og í gær bættist Micth McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, í hóp þeirra sem hafa gagnrýnt Trump opinberlega vegna árásarinnar á þinghúsið. Hann sagði að Trump ætti að skammast sín fyrir að hafa hvatt til árásarinnar.
Talsmenn Hvíta hússins vildu ekki tjá sig um hugmyndir Trump um stofnun nýs flokks þegar Wall Street Journal leitaði eftir svörum. Blaðið segir óljóst hversu mikil alvara sé að baki þessum hugmyndum Trump en stofnun flokks myndi kalla á að hann eyði miklum tíma í verkefnið og fjármunum. Hann á auðvitað stóran hóp stuðningsmanna sem virðast fylgja honum í einu og öllu en margir þeirra voru ekki í Repúblikanaflokknum áður en Trump var útnefndur forsetaframbjóðandi flokksins 2016.