Dr. Nicholas Christakis, atferslifræðingur og prófessor við Yale-háskólann er ekki í vafa um hvernig fólk muni bregðast við þegar við höfum sigrast á faraldrinum. Hann telur að mannkynið muni sleppa fram af sér beislinu og muni í stuttu máli sagt hegða sér eins og fólk gerði á þriðja áratug síðustu aldar. Þá var algengt í bandarískum og evrópskum stórborgum að fólk héldi glæsileg samkvæmi, jazzinn dundi, kjaftasögur flugu hátt og víða og nærbuxur fuku af í gríð og erg. The Guardian skýrir frá þessu.
Þetta gerðist í kjölfar Spænsku veikinnar og loka fyrri heimsstyrjaldarinnar. Fólk fór þá að tileinka sér nýjan lífsstíl, var ekki svo fastheldið á peninga, neyslan jókst samhliða sívaxandi iðnaði og frjálslyndi átti góða daga.
Christakis telur að það verði jafnvel ekki fyrr en 2024 sem við förum að sjá næturklúbba fulla af fólki og blómstrandi félags- og viðskiptalíf. Hann telur að það taki allt næsta ár að dreifa bóluefnum gegn kórónuveirunni og því næst verði heimsbyggðin að jafna sig á þeim efnahagslegu hörmungum sem faraldurinn hefur valdið.