Seðillinn er nú til sölu á uppboði hjá Heritage Auctions, sem er uppboðshús í Dallas. Margir safnarar fylgjast vel með uppboðinu og bjóða í að sögn talsmanna Heritage Auctions.
„Það er búið að skoða seðilinn rúmlega 4.300 sinnum á vefsíðunni okkar,“ sagði Dustin Johnston, framkvæmdastjóri seðla- og myntdeildar uppboðshússin. Uppboðinu lýkur 22. janúar. Þegar þetta er skrifað er komið boð upp á 57.000 dollara í seðilinn en það jafngildir um 7,4 milljónum íslenskra króna. Ef þetta verður hæsta boðið verður heildarkostnaður kaupandans 69.000 dollarar því hann þarf einnig að greiða þóknun til uppboðshússins.
Seðillinn var prentaður 1996. Hann er einstakur vegna þess að á honum er límmiði frá Del Monte ávaxtaframleiðandanum. Miðinn hefur af einhverjum orsökum endað á seðlinum í prentferlinu og því var innsigli fjármálaráðuneytisins og raðnúmer seðilsins prentað á miðann.
Seðilinn kom fyrst fyrir almenningssjónir 2003 þegar háskólastúdent bauð hann til sölu á eBay. Hann hafði fengið hann úr hraðbanka. Seðillinn seldist þá fyrir um 10.000 dollara. Hann var seldur aftur 2006 á uppboði hjá Heritage Auction og þá fengust 25.000 dollarar fyrir hann.