„Þessi „ég fyrst“ hugsun setur fátækustu og viðkvæmustu löndin í mikla hættu og grefur undan aðgerðum okkar allra,“ sagði hann við setningu árlegs stjórnarfundar stofnunarinnar í gær. Hann sagði að þetta muni á endanum verða til þess að lengja faraldurinn.
Ákallinu um réttlátari skiptingu bóluefna er beint bæði til ríkisstjórna heimsins og framleiðenda bóluefnanna.
Hann sagði að á síðasta ári hafi verið skrifað undir 44 tvíhliða samninga um bóluefni en á þessu ári séu þeir orðnir 12. Þetta sagði hann geta haft í för með sér að tafir verði á afhendingu bóluefna til fátækari ríkja. Það sé að verða til markaður ringulreiðar þar sem bóluefni eru hömstruð og það veldur síðan truflunum á samfélagslega sviðinu og því efnahagslega.
Aukið kapp hefur færst í baráttuna um bóluefnin eftir að nokkur enn meira smitandi afbrigði veirunnar greindust.
Tedros tók sem dæmi um óréttlætið að í 49 ríkum iðnaðarríkjum hafi rúmlega 39 milljónum skömmtum af bóluefnum verið dreift til þessa en á sama tíma hafi í einu af fátæku ríkjunum aðeins 25 skömmtum verið dreift.