Á annan tug manna, sem tengjast fimm stjörnu hótelunum Kempinski og Badrutt‘s Palace hafa greinst með mjög smitandi afbrigði kórónuveirunnar, afbrigði sem stundum hefur verið nefnt suður-afríska afbrigðið en það ber heitið 501.V2. Blick skýrir frá þessu. Yfirvöld hafa þó ekki staðfest að um þetta afbrigði veirunnar sé að ræða því enn er ekki búið að rannsaka sýnin að fullu.
Christian Gartmann, sem stýrir viðbrögðum bæjarins við COVID-19, sagði í samtali við Blick að það væri aðallega starfsfólk á hótelunum sem væri smitað. Ekki væri um beinan faraldur að ræða, heldur nokkurn fjölda tilfella. Hann sagði að bæjarbúar verði að umgangast eins fáa og þeir geta á næstunni.
501.V2 afbrigðið er talið mun meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar að B117 afbrigðinu undanskildu, hinu svokallaða breska afbrigði, en það er talið álíka smitandi.
300 hótelstarfsmenn og tæplega 100 gestir eru nú í sóttkví og bíða eftir niðurstöðum úr sýnatöku áður en þeir mega blanda geði við annað fólk.