Samkvæmt ákvörðun páfans þá mega konur nú lesa upp í messum og aðstoða presta við altarið og annað tengt messuhaldi. Þetta er lítið skref og víðs fjarri því að opna leið kvenna til prestsembætta en Frans páfi segir að þetta sé aðferð til að viðurkenna að konur geti „lagt mikið af mörkum“ til kirkjunnar. Washington Post skýrir frá þessu.
Lagabreytingin gerir eiginlega ekki annað en að staðfesta hlutverk sem konur gegna nú þegar í kaþólsku kirkjunni víða um heim, þar á meðal í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir að Frans hafi oft sagt að hann styðji jafnrétti kynjanna, innan sem utan kirkjunnar, hefur hann ekki gert mikið til að bæta það innan kirkjunnar. Hann hefur reglulega sagt að hann telji aðeins karlmenn hæfa til að gegna prestsembætti.