Yfirvísindamaður fyrirtækisins, Paul Stoffels, segist reikna með að fyrirtækið verði tilbúið með öll gögn um virkni bóluefnisins í lok janúar eða byrjun febrúar og þá verði hægt að sækja um heimild til notkunar þess. Mirror skýrir frá þessu. Fram kemur að Stoffels hafi sagt á þriðjudaginn að fyrirtækið vænti þess að geta framleitt einn milljarð skammta af bóluefninu á þessu ári en verið sé að efla framleiðslugetu þess þessa dagana.
Hann sagði að of snemmt væri að spá fyrir um hversu margir skammtar verði tilbúnir í mars þegar bandaríska lyfjastofnunin veitir hugsanlega leyfi fyrir notkun þess.
The New York Times skýrði nýlega frá því að Johnson & Johnson glími við tafir í framleiðslu og það gæti haft áhrif á hversu marga skammta af bóluefninu fyrirtækið geti afgreitt á árinu. „Við stefnum á einn milljarð skammta á árinu 2021. Ef miðað er við einn skammt þá dugir það fyrir einn milljarð manna,“ sagði Stoffels.
Bóluefni fyrirtækisins er framleitt í Bandaríkjunum, Evrópu, Suður-Afríku og Indlandi í samstarfi við önnur lyfjafyrirtæki. Það er gert til að auka framleiðslugetuna.