AFP hefur þetta eftir heimildarmönnum í flokki Merkel, CDU. Nýjar aðgerðir munu að sögn meðal annars beinast að því að biðja Þjóðverja að stunda enn meiri félagsforðun en nú er og þar með hitta eins fáa og hægt er.
Merkel er sögð hafa sérstaklega miklar áhyggjur af hinu svokallaða „enska afbrigði“ sem er talið vera 70% meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar. Bild segir að Merkel vilji grípa til „ofurlokunar“ samfélagsins. Segir blaðið að í því felist að stórum hluta almenningssamgangna verði lokað. Engin ákvörðun hefur þó enn verið tekin um þetta. Merkel er sögð vilja funda með leiðtogum sambandsríkjanna í næstu viku en næsti fundur þeirra er fyrirhugaður 25. janúar en honum vill hún flýta.
Reuters hefur eftir heimildarmönnum í sambandsríkjunum að þar sé enn töluverð andstaða við að herða aðgerðirnar.
Í gær létust 1.244 af völdum COVID-19 í Þýskalandi og hafa aldrei verið fleiri á einum degi.
Þýskaland var eitt þeirra Evrópuríkja sem kom best út úr fyrstu bylgju faraldursins í vor en á síðustu mánuðum hefur staðan breyst til hins verra. Robert Koch stofnunin segir að Þjóðverjar virðist ekki taka smithættuna nógu alvarlega.