Þetta sagði Biden þegar hann tjáði sig í fyrsta sinn eftir að fulltrúadeild þingsins samþykkti að ákæra Trump. „Ég vona að leiðtogar öldungadeildarinnar finni leið til að takast á við stjórnarskrárbundnar skyldur sínar í tengslum við réttarhöldin um leið og deildin vinnur að öðrum málum sem liggur á að taka fyrir,“ sagði hann í yfirlýsingu.
Hann lagði um leið áherslu á að Bandaríkin berjist nú við heimsfaraldur kórónuveirunnar og slæmt efnahagsástand og að þörf sé á að öldungadeildin samþykki tilnefningar hans í ráðherraembætti sem fyrst eftir að hann tekur við völdum í næstu viku.
Málið gegn Trump verður ekki tekið fyrir fyrr en eftir þann tíma.