Það sem af er ári hafa komið upp tæplega 2.000 mál hjá bankanum þar sem viðskiptavinir hans voru að hvítþvo peninga fyrir glæpamenn. 2017 voru málin 470. Peningaþvætti fer þannig fram að glæpamenn millifæra peninga inn á reikninga fólks sem tekur þá síðan út í hraðbanka. Peningarnir koma oft af reikningum sem glæpamennirnir hafa stolið þeim af. Með þessu ná þeir að hylja eigin slóð.
Mörg mál hafa komið upp þar sem börn og ungt fólk á aldrinum 14 til 25 ára kemur við sögu, aðallega piltar og menn. Sem dæmi má nefna að 17 ára piltur aðstoðaði við peningaþvætti með því að leyfa glæpamönnum að millifæra 20.000 danskar krónur inn á reikning sinn. Hann tók peningana síðan út og afhenti glæpamönnunum og fékk 2.500 krónur fyrir sinn þátt.
Dæmi eru um að glæpamenn herji á skóla til að finna börn og ungmenni til að taka þátt í peningaþvætti af þessu tagi. Bjóða þeir peninga eða tískuvarning í skiptum fyrir viðvikið.