Samningurinn var undirritaður tæpum tveimur vikum eftir að sala Frakka á kafbátum til Ástralíu rann út í sandinn þegar Ástralar sömdu um kaup á kjarnorkukafbátum af Bandaríkjunum. Þetta reitti Frakka til reiði og vönduðu þeir Áströlum og Bandaríkjamönnum ekki kveðjurnar í kjölfarið.
Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, sagði í gær að samningurinn við Grikki sé hluti af meira „hernaðarsamstarfi“ og lagði áherslun á mikilvægi þess að ESB-ríkin geti varið sig sjálf. „Evrópubúar eiga að hætta að vera barnalegir. Þegar við finnum fyrir þrýstingi frá öðrum ríkjum, sem styrkja sig, þá verðum við að bregðast við og sýna að við höfum getu og hæfni til að verja okkur,“ sagði hann.