„Madagaskar er á barmi fyrstu hungursneyðar sögunnar vegna loftslagsbreytinganna,“ hefur BBC eftir Shelley Thakral hjá WFP, Matvælaaðstoð SÞ.
Mörg hundruð þúsund íbúar eyjunnar þjást vegna þurrka og tugir þúsunda eru á barmi hungursneyðar að sögn Issa Sanogo, yfirmanns hjá SÞ í landinu. Nú er hið árlega hungurtímabil að hefjast á eyjunni. „Hungurtímabilið er að hefjast. Við eigum á hættu að sjá að fólk, sem hefur þraukað langvarandi þurrka, fara inn í þetta tímabil án þess að eiga möguleika á að borða, án peninga til að greiða fyrir heilsugæslu eða til að senda börnin í skóla, verða sér út um hreint vatn eða verða sér úti um fræ fyrir næsta sáningartímabil,“ skrifar Sanogo á vef SÞ.
Ástandið hefur orðið til þess að WFP hefur reiknað út hversu mikið fé stofnunin hefur þörf fyrir til að geta útvegað íbúum Grand Sud mat á komandi hungurtímabili. Nemur upphæðin sem svarar til um 14 milljarða íslenskra króna.
Íbúar á Madagaskar upplifðu sex sinnum alvarlega þurrka á milli 1990 og 2013 segir í skýrslu Alþjóðabankans frá 2014. Yfirleitt er ástandið verst á suðurhluta eyjunnar þar sem úrkoma er að jafnaði minni en á norðurhlutanum.
Vegna legu sinnar er Madagaskar meðal þeirra landa sem eru viðkvæmust fyrir loftslagsbreytingunum og áhrifum þeirra segir í annarri skýrslu Alþjóðabankans frá 2018.
„Madagaskar er á barmi þess að upplifa fyrstu hungursneyð sögunnar vegna loftslagsbreytinganna. Þetta er fordæmalaust. Þetta fólk hefur ekki gert neitt til að valda þessum loftslagsbreytingum. Það notar ekki jarðefnaeldsneyti . . . en samt sem áður leggjast þyngstu byrðar loftslagsbreytinganna á herðar þess,“ hefur BBC eftir Shelley Thakral hjá WFP.