Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeildinni, og Adam Schiff, þingmaður, lögðu frumvarpið fram en það heitir „Lög til verndar lýðræðinu“.
Því er að þeirra sögn ætlað að endurvekja valdajafnvægið á milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins. Meðal þess sem frumvarpið felur í sér er ákvæði um heimild forsetans til að náða fólk. Samkvæmt frumvarpinu verður honum ekki heimilt að náða fólk sem hefur hlotið dóm fyrir að hindra störf þingsins. Einnig verður komið í veg fyrir að forsetinn geti náðað sjálfan sig.
Frumvarpinu er einnig ætlað að herða aðgerðir til að koma í veg fyrir erlenda íhlutun í kosningar og það á að auka vernd uppljóstrara. Þá verða áhrif þingsins aukin hvað varðar neyðarástandsyfirlýsingar en Trump var iðinn við að gefa út slíkar yfirlýsingar.
Ekki er ljóst hvort frumvarpið kemst í gegnum þingið en Demókratar eru með nauman meirihluta í fulltrúadeildinni.