Puigdemont kom frá Brussel þar sem hann dvelur í sjálfskipaðri útlegð að sögn lögmanns hans. Spánverjar saka hann um að hafa staðið að baki ólöglegrar atkvæðagreiðslu árið 2017, meðal íbúa Katalóníu, um sjálfstæði Katalóníu frá Spáni. Margir þeirra stjórnmálamanna sem unnu að málinu með honum hafa verið dæmdir í allt að 13 ára fangelsi fyrir að hafa staðið fyrir atkvæðagreiðslunni.
Handtakan var framkvæmd á grundvelli handtökuskipunar frá í október 2019.
Puigdemont var kjörinn á Evrópuþingið 2019 og hefur belgískur dómstóll hafnað framsalskröfu Spánverja á þeim grunni að hann njóti friðhelgi sem þingmaður á Evrópuþinginu.
Lögmaður hans, Gonzalo Boye, skrifaði á Twitter í gærkvöldi að hann efist um gildi handtökuskipunarinnar þar sem dómstóll ESB hafi ógilt hana.
Nú bíður það verk ítalskra dómstóla að úrskurða um hvort Puigdemont verði látinn laus eða framseldur til Spánar. Dómari mun taka afstöðu til þess í dag.