Hann sagði að Kínverjar ætli að auka stuðning við þróunarríki svo þau geti byggt upp umhverfisvæna orkugjafa og ætla ekki að fjármagna verkefni sem byggjast á notkun kolaorku.
Brennsla kola losar um mikið magn CO2 sem á að sögn vísindamanna stóran þátt í hnattrænni hlýnun.
Kínverjar hafa sætt miklum þrýstingi frá mörgum ríkjum um að hætta að fjármagna kolaorkuver í öðrum ríkjum, þar á meðal í mörgum Afríkuríkjum.
Fyrr á árinu tilkynntu Suður-Kórea og Japan um samskonar aðgerðir en ríkin ásamt Kína hafa verið þau einu sem hafa boðið upp á fjárfestingar í stórum stíl til kolafrekra verkefna víða um heiminn.
Xi lofaði einnig að Kínverjar muni gera meira til að berjast gegn loftslagsbreytingunum.
Hvergi í heiminum eru fleiri kolaorkuver en í Kína en Kínverjar eyða nú háum fjárhæðum í að færa orkunotkun sína yfir í umhverfisvæna orku.