Í gær gerði FBI húsleit heima hjá Brian og foreldrum hans í North Port í Flórída. Gabby og Brian bjuggu þar áður en þau héldu í ferðina örlagaríku.
CNN segir að foreldrar Brian hafi verið fluttir á brott til yfirheyrslu áður en húsleitin hófst.
Á myndum sjást lögreglumenn bera muni út úr húsinu. Þeir lögðu einnig hald á Ford Mustang sem er í eigu Brian.
Ástæðan fyrir húsleitinni er að sögn nokkur dularfull smáskilaboð sem móðir Gabby fékk áður en dóttir hennar hvarf. Fox News skýrir frá þessu. Fram kemur að móðir hennar hafi furðað sig á orðalagi þessara síðustu smáskilaboða úr síma dóttur sinnar. Í einum skilaboðunum stendur: „Getur þú hjálpað Stan, ég er alltaf að fá talhólfsskilaboðin hans og ósvaraðar hringingar.“
Samkvæmt gögnum, sem lögreglan lagði fram til að fá húsleitarheimild, þá er Stan afi Gabby en það vakti áhyggjur móður hennar að það stóð Stan í skilaboðunum því Gabby hafði aldrei kallað hann því nafni. Þetta voru ein margra smáskilaboð sem urðu til þess að grunurinn beindist enn frekar að Brian. Í síðustu smáskilaboðunum stóð: „Ekkert samband í Yosemite.“ Fjölskylda Gabby telur að hún hafi ekki skrifað þessi skilaboð sjálf. Lík hennar fannst í Yosemite þjóðgarðinum.