Skipin eiga að vera „augu og eyru“ Breta allt frá vesturströnd Afríku til vesturstrandar Bandaríkjanna að því er segir í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneytinu. CNN skýrir frá þessu.
Skipin munu verða við eftirlitsstörf í Kyrrahafi og Indlandshafi og munu fara allt norður í Beringshaf og allt suður að Nýja-Sjálandi og Tasmaníu í Ástralíu. Á miðju þessu svæði er Kína en spennan hefur farið vaxandi á milli Kína og Bandaríkjanna, sem eru helstu bandamenn Breta, síðustu misseri.
Í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytisins segir að áhafnir skipanna muni sinna eftirliti með fíkniefnasmygli, hryðjuverkum og öðrum ólöglegum athöfnum og taka þátt í æfingum með herjum annarra ríkja.
46 eru í áhöfn hvors skips og verður skipt um áhöfn á nokkurra vikna fresti. Skipin verða ekki með fasta heimahöfn í Kyrrahafi en munu nota hafnaraðstöðu hjá bandamönnum Breta eftir því sem best þykir henta. Auk áhafnar verða allt að 52 sérsveitarmenn um borð í skipunum.