Þegar Brian sneri einn heim hafði móðir Gabby samband við lögregluna sem fór að kanna málið. Þegar lögreglumenn fóru heim til Brian komu foreldrar hans í veg fyrir að hann ræddi við lögregluna. Lögreglan segir að hvarf Gabby sé „dularfullt“ en þar sem Brian hefur ekki stöðu grunaðs í málinu ber honum ekki skylda til að ræða við lögregluna um málið.
Hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær um málið að sögn ABC News. Í henni sagði hann að síðustu dagar hafi verið erfiðir fyrir fjölskyldu sína og fjölskyldu Gabby og að hann hafi fengið vitneskju um að leit sé hafin að Gabby nærri Grand Teton National Park í Wyoming og vonist hann til að Gabby finnist heil á húfi. Hann segir jafnframt í yfirlýsingunni að samkvæmt ráði frá lögmanni fjölskyldunnar hafi hann og fjölskylda hans ákveðið að halda sig til hlés og tjá sig ekki frekar um málið að sinni.
Gabby og Brian bjuggu í bílnum á ferð sinni og sýndu frá henni á YouTube. Lögreglan hefur lagt hald á bílinn og er nú að rannsaka hann í leit að vísbendingum um örlög Gabby.
Á YouTube má sjá að þau fóru frá Flórída til New York og þaðan til Utah og þaðan til Wyoming. Ætlunin var að ljúka ferðinni í Portland í Oregon.
Gabby hefur ekki sést síðan þau stoppuðu í Grand Teto í Wyoming og fjölskylda hennar hefur ekki náð sambandi við hana síðan 25. ágúst.
Tveimur vikum áður en Gabby hvarf hafði lögreglan afskipti af parinu í Utah en þar höfðu þau átt í deilum við hvort annað. Gabby var þá í uppnámi og hafði áhyggjur af andlegri heilsu sinni. BBC skýrir frá þessu.