Kínverjum hugnast þetta nýja bandalag illa og segja stofnun þess bera vott um „kaldastríðshugsunarhátt“.
Varnarbandalagið hefur fengið heitið Aukus. Í samningi ríkjanna felst meðal annars að Ástralar munu koma sér upp flota kjarnorkuknúinna kafbáta.
Á síðustu árum hefur spennan á milli Bandaríkjanna og Kína farið vaxandi. Ríkin eru ósammála um málefni Taívan og Suður-Kínahaf en þar deila Kínverjar við mörg ríki um yfirráð yfir hafsvæðinu.
Í yfirlýsingu ríkjanna þriggja er Kína ekki nefnt einu orði en fáum dylst að bandalaginu er beint gegn þeim. Ríkin ætla að deila tækninýjungum sín á milli, meðal annars hvað varðar netöryggi, gervigreind og landdrægar eldflaugar.
Ástralar munu kaupa átta kjarnorkuknúna kafbáta af Bandaríkjunum og eru það nokkur tíðindi því Bandaríkin hafa fram að þessu ekki viljað selja öðrum þjóðum, nema Bretum, kjarnorkukafbáta.