Daily Mail segir að samkvæmt dómsskjölum hafi prinsinn ráðið Andrew Brettler til starfa en hann hefur unnið mikið að málum er varða kynferðisofbeldi.
Giuffre sakar prinsinn, sem er þriðja barn Elísabetar II drottningar, um að hafa brotið gegn henni kynferðislega þegar hún var 17 ára en samkvæmt bandarískum lögum þá var hún barn að aldri. Hún sakar prinsinn um að hafa brotið gegn henni í Lundúnum, New York og á einkaeyju barnaníðingsins Jeffrey Epstein í Karíbahafi. Epstein seldi aðgang að henni á þessu tíma en hann stundaði mansal og barnaníð. Andrew prins vísar öllum þessum ásökunum á bug.
Það fyrsta sem bandarískir dómstólar verða að taka afstöðu til er hvort rétt hafi verið staðið að afhendingu stefnunnar í málinu en samkvæmt bandarískum lögum verður að afhenda hinum stefnda stefnuna persónulega. Andrew reyndi vikum saman að komast undan því að taka við henni og faldi sig í höllum konungsfjölskyldunnar. Lögmenn Giuffre segja að á endanum hafi tekist að afhenda honum stefnuna.