Þar sem sjúkdómurinn flokkast ekki lengur sem sjúkdómur sem ógnar samfélaginu þá getur heilbrigðisráðherrann ekki lengur ákveðið að grípa til sóttvarnaaðgerða sem fela í sér ýmsar takmarkanir á daglegu lífi fólks.
Mjög hefur verið slakað á sóttvarnaaðgerðum í Danmörku á síðustu vikum og voru fáar reglur enn í gildi. Síðustu reglurnar sem féllu úr gildi á miðnætti voru krafa um að gestir næturklúbba ættu að sýna bólusetningarvottorð eða neikvæða niðurstöðu skimunar við innganginn.
Í lok ágúst ákvað ríkisstjórnin að COVID-19 ógni samfélaginu ekki lengur því góð stjórn er á útbreiðslu hans og þátttaka í bólusetningum hefur verið góð. Sjúkdómurinn telst nú vera almennur en hættulegur sjúkdómur. Það þýðir að enn eru ákveðnar takmarkanir varðandi komur fólks til landsins, að skólp verður rannsakað til að greina hversu mikið magn af veirunni er í því, smitrakning verður áfram við lýði og heimilt er að takmarka aðgang að ákveðnum stöðum ef þörf krefur.
Ekki þarf að nota andlitsgrímur lengur í Danmörku og hefur ekki þurft vikum saman nema hvað að á flugvöllum þarf að nota þær en þar er evrópskum reglum fylgt.