Samkvæmt frétt CNN, sem vísar í nokkra heimildarmenn, þá hefur hún engan áhuga á að verða forsetafrú aftur.
Ekki liggur fyrir hvort eiginmaður hennar muni reyna að komast aftur í Hvíta húsið þegar næst verður kosið um forsetaembættið en Melania vill helst ekki flytja aftur þangað að sögn heimildarmanns CNN. „Hún vill ekki verða forsetafrú aftur,“ sagði heimildarmaðurinn. „Þessum kafla er lokið og þannig er það,“ sagði hann einnig.
Melania hefur verið þekkt fyrir að vera sú forsetafrú sem lét einna minnst fyrir sér fara á meðan hún bjó í Hvíta húsinu og eftir að hún flutti þaðan í janúar hefur hún látið enn minna fyrir sér fara. Hún sást aðeins einu sinni opinberlega í sumar en það var í New York þegar hún kom út úr Trump Tower með syni sínum Barron.
CNN segir að hún ætli að búa á Mar-a-Lago í Flórída, sem er sumarleyfisstaður í eigu Trump, á meðan Barron sonur þeirra stundar nám í einkaskóla.
Heimildarmenn CNN segja að Melania hafi ekki neinar fyrirætlanir uppi um að taka þátt í kosningafundum eða öðrum pólitískum viðburðum með eiginmanni sínum því hún telji pólitískar áætlanir hans vera hans vinnu, ekki hennar. „Þú munt ekki sjá hana á kosningafundum eða öðrum pólitískum viðburðum, jafnvel þótt Donald Trump segi opinberlega að hann bjóði sig fram aftur,“ hefur CNN eftir heimildarmanni. Sá sagði að líklega muni Lara Trump, sem er gift Eric Trump syni Donald Trump, eða Kimberly Guilfoyle, unnasta Don Trump sem er elsti sonur Trump, taka stöðu Melania á pólitíska sviðinu.