Þetta eru fjölmennustu mótmæli bænda í landinu í tæpt ár en þeir hafa barist gegn lögunum og vilja að þau verði afnumin. Talsmaður bænda sagðist telja að mótmælin muni auka þrýsting á ríkisstjórn Narendra Modis um að afnema lögin. „Við munum herða mótmæli okkar með því að mótmæla í hverjum einasta bæ í Uttar Pradesh til að breiða út boðskapinn um að ríkisstjórn Modis sé óvinur bænda,“ sagði talsmaðurinn, Rakesh Tikait.
Um 250 milljónir búa í Uttar Pradesh en landbúnaður er mjög mikilvægur þar.
Lögin, sem tóku gildi í september á síðasta ári, kveða á um að bændur geti selt afurðir sínar beint til heildsala án þess að fara um markað sem lýtur stjórn ríkisvaldsins. Ríkisstjórnin telur að þetta muni verða til þess að bændur fái hærra verð fyrir afurðir sínar en bændur segja það ekki vera svo því þeir hafi ekki sama afl lengur hvað varðar samninga um verð.
Síðustu átta mánuði hafa tugir þúsunda bænda verið í tjaldbúðum við aðalleiðirnar til höfuðborgarinnar Nýju Delí til að láta andúð sína á landbúnaðarstefnu hennar í ljós.