Á spjallsíðum hvítra öfgahægrimanna í Bandaríkjunum er valdatökunni fagnað að sögn CNN. Notendur þessara síða eru oft fólk sem telur hvítt fólk öðrum kynþáttum æðra.
CNN segir að þetta fólk dáist að árangri Talibana í baráttunni við alþjóðlegt herlið. Þessi ánægja öfgasinnanna með Talibana veldur ákveðnum áhyggjum hjá bandarískum yfirvöldum sem hafa meðal annars áhyggjur af hvernig öfgahægrimenn muni taka á móti þeim Afgönum sem koma til landsins.
CNN hefur komist yfir upptöku af símtali John Cohen, sem er yfirmaður í njósna- og greingardeild heimavarnarráðuneytisins, við lögreglumenn. Þar segir hann að ráðuneytið hafi áhyggjur af ummælum öfgahægrimanna og að þetta muni verða til þess að þeir ráðist á samfélög innflytjenda eða ákveðna trúarhópa.
Samtökin SITE, sem fylgjast með umsvifum öfgasinna á netinu, segja í nýjasta fréttablaði sínu að bandarískir öfgahægrimenn líti á valdatöku Talibana sem „kennslustund í ættjarðarást, frelsi og trú,“.
„Þeir tóku völdin, innleiddu trú sína sem lög og tóku þá af lífi sem voru ósammála. Ef hvítir menn á Vesturlöndum væru jafn kjarkaðir og Talibanar væri okkur ekki stjórnað af gyðingum eins og nú,“ hafa öfgahægrimenn meðal annars skrifað á spjallsíður sínar að sögn SITE.