Að minnsta kosti 12 hafa látist í New York og 23 í New Jersey að sögn NBC. Tveggja ára drengur er á meðal fórnarlambanna. Í Louisiana létust 9, 2 í Mississippi og 2 í Alabama. Í Connecticut lést 1 og sömuleiðis í Maryland.
Neyðarástandi var lýst yfir í New York og New Jersey þegar Ida gekk yfir og olli miklum og skyndilegum flóðum. Meðal annars varð að stöðva ferðir neðanjarðarlesta í New York.
Á miðvikudaginn mældist úrkoman í Central Park í New York 80 mm á einni klukkustund og hefur aldrei mælst meiri úrkoma á einni klukkustund í borginni. Fyrra metið var 49 mm en það var sett í síðasta mánuði þegar leifar hitabeltisstormsins Henri fóru yfir borgina.
Á fréttamannafundi í gær sagði Biden að fellibylurinn Ida og gróðureldarnir í vesturríkjunum auk hinna miklu flóða í New York og New Jersey séu enn ein áminningin um að áhrifa öfgafullra veðra og þar með loftslagsbreytinganna sé farið að gæta. „Við verðum að undirbúa okkur betur. Við verðum að grípa til aðgerða. Hér er um líf og dauða að tefla og við stöndum saman í þessu,“ sagði forsetinn.