Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við Duke háskólann. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar þá eru líkurnar á að heimsfaraldur, á borð við yfirstandandi heimsfaraldur, brjótist út tvö prósent á ári. Einnig komust vísindamennirnir að þeirri niðurstöðu að líkurnar á faröldrum fari vaxandi því við finnum sífellt fleiri veirur í náttúrunni sem geta hugsanlega þróast og orðið að faröldrum síðar.
Vísindamennirnir fóru í gegnum vísindaleg gögn og bókmenntir sem vísa til stórra faraldra síðustu fjórar aldirnar. Út frá þessu gerðu þeir gagnagrunn um alla heimsfaraldra sem þeir fundu. Í gagnagrunninum eru þekktir sjúkdómar á borð við kóleru og bólusótt.
Vísindamennirnir segja að líkurnar á nýjum faröldrum aukist því við séum sífellt að uppgötva nýjar veirur sem geta borist úr dýrum í fólk. Ekki er þó vitað hvort við erum einfaldlega orðin betri í að finna þessar veirur eða hvort þeim fari fjölgandi. En meðal þeirra raka sem hafa verið sett fram fyrir auknum líkum á heimsfaröldrum er að eftir því sem jarðarbúum fjölgi þá ferðist fólk meira og umgangist náttúruna í meiri mæli en áður. Þá séu líkur á að veirur berist í fólk þegar skógar eru ruddir.