6.030 skráðu að þeir hefðu greinst með COVID-19 að minnsta kosti 14 dögum eftir að þeir fengu fyrri skammtinn af bóluefni en áður en þeir fengu þann síðari. 2.370 greindust með smit að minnsta kosti sjö dögum eftir að þeir fengu síðari skammtinn. Sky News skýrir frá þessu.
Rannsóknin hefur verið birt í hinu virta vísindariti Lancet. Í niðurstöðum hennar segja vísindamennirnir að þeir hafi komist að því að líkurnar á að vera með sjúkdómseinkenni þegar að minnsta kosti 28 dagar voru liðnir frá því að smit kom upp hjá þeim sem höfðu verið bólusettir væru tæplega helmingi minni ef fólk var búið að fá báða skammtana af bóluefni.
„Þessi niðurstaða bendir til að líkurnar á langvarandi COVID-19-veikindum sé minni hjá þeim sem hafa fengið tvo skammta af bóluefni og því til viðbótar kemur að áður hefur verið staðfest að minni líkur eru á að bólusettir smitist,“ segir í niðurstöðum vísindamannanna.
Tim Spector, prófessor við King‘s College, er aðalhöfundur rannsóknarinnar. Hann segir að bólusetningar dragi mjög úr líkunum á að fólk glími við langvarandi COVID-19-veikindi. „Í fyrsta lagi með að draga 8-10 tífalt úr líkunum á sjúkdómseinkennum og með því að draga úr líkunum á langvarandi COVID-19-veikindum um helming. Óháð því hversu langvarandi sjúkdómseinkennin eru þá sjáum við að eftir tvo skammta af bóluefni eru smitin mun vægari. Bóluefnin eru því að hafa áhrif til hins betra. Við hvetjum fólk til að fá seinni skammtinn eins fljótt og það getur,“ sagði hann.