Biden ávarpaði bandarísku þjóðina í gær og sagði að árásanna verði hefnt grimmilega. Stjórnmálaspekingar segja að ljóst sé að Biden sé undir miklum þrýstingi vegna stöðunnar í Afganistan. Þeir segja ljóst að þrátt fyrir að Biden vilji kalla herliðið heim fyrir lok mánaðarins stefni nú í að Bandaríkin sitji áfram föst í Afganistan á einn eða annan hátt og skipti þá engu að Biden vill fá herinn heim.
Vefritið Politico sagði í gær að árás Íslamska ríkisins í gær væri „versti dagur forsetatíðar Joe Biden“. Þetta taka margir undir. Í kjölfar árásanna í gær hafa margir velt því upp hvort Bandaríkjunum takist að flytja síðustu bandarísku ríkisborgarana frá landinu áður en Talibanar loka landinu alveg en þeir segja að ekki komi til greina að framlengja viðveru Bandaríkjahers í landinu. Þeir hafa nær allt landið á sínu valdi en Bandaríkjaher hefur flugvöllinn í Kabúl á sínu valdi.
Varnarmálaráðuneytið telur að enn séu 1.500 Bandaríkjamenn strandaglópar í Afganistan og það sama gildir um mörg þúsund Afgana sem störfuðu með bandaríska herliðinu.