Hann sagðist vera að íhuga að loftárásir verði gerðar á liðsmenn Íslamska ríkisins. „Til þeirra sem stóðu á bak við þessa árás og til allra þeirra sem vilja Bandaríkjunum illt: Við fyrirgefum ekki, við gleymum ekki. Við munum elta ykkur og láta ykkur gjalda fyrir þetta,“ sagði Biden.
Talið er að tveir sjálfsvígssprengjumenn hafi gert árásirnar í gær en einn af hópunum innan Íslamska ríkisins hefur lýst ábyrgð á árásunum á hendur sér. Biden sagði að hópurinn, Islamic State Khorasan, hafi skipulagt fjölda „flókinna“ árása á Bandaríkjamenn í Afganistan. „Ég hef fyrirskipað yfirmönnum hersins að gera áætlanir um árásir á Islamic State Khorasan,“ sagði Biden. „Við munum svara með miklu afli og nákvæmni þegar við teljum rétta tímann til þess á stað sem við veljum,“ sagði hann.