Það liggur beint við að halda að bin Laden hafi viljað Biden feigan á þessum tíma og hefði ekki hikað við að láta myrða hann ef tækifæri gæfist til. En það var ekki raunin miðað við það sem kemur fram í bréfinu. „Þeir (al-Kaída, innsk. blaðamanns) eiga ekki að reyna að ráðast á Joe Biden þegar hann kemur til Afganistan eða Pakistan,“ skrifaði hann.
Þess í stað átti að reyna að komast að ef og þá hvenær Obama og David Petraeus, sem var yfirmaður herafla NATO í Afganistan 2010, myndu koma til landsins og granda flugvél þeirra. Ef þetta hefði gengið eftir hefði Biden tekið við sem forseti Bandaríkjanna og það var einmitt það sem bin Laden var að vonast eftir. „Biden er algjörlega óundirbúinn fyrir þetta hlutverk og hann mun koma Bandaríkjunum í erfiðleika,“ skrifaði bin Laden.
Það að þetta 11 ára gamla bréf veki athygli núna má rekja til valdatöku Talibana í Afganistan en margir skrifa það á ábyrgð Biden að þeir skuli hafa náð landinu á sitt vald og hefur hann sætt mikilli gagnrýni fyrir ákvörðun sína um að kalla bandaríska herliðið heim frá landinu.